Þessi tafla sýnir lýsigögn fyrir þann mælikvarða sem er fáanlegur úr íslenskum gögnum og er líkastur alþjóðlegum heimsmarkmiðamælikvarða Sameinuðu þjóðanna. Vinsamlegast takið eftir að jafnvel þótt alþjóðlegur heimsmarkmiðamælikvarði Sameinuðu þjóðanna sé aðgengilegur úr íslenskum gögnum, ber að hafa þessa töflu til hliðsjónar fyrir upplýsingar um innlenda aðferðarfræði og önnur íslensk lýsigögn
Birtur mælikvarði |
Lágtekjuhlutfall eftir aldri og kyni |
---|---|
Lýsing mælikvarða |
Hlutfall íbúa (í hundraðshlutum, %) sem býr undir lágtekjumörkum. Mælingar á landsbundinni fátækt eru mikilvægar fyrir innlenda stefnumótun. Landsbundin fátæktarmörk eru notuð til að fá nákvæmari mat á fátækt sem samrýmist efnahagslegum og félagslegum aðstæðum í hverju landi fyrir sig, en eru ekki ætluð fyrir alþjóðlegan samanburð á fátæktarmörkum. |
Landfræðileg þekja |
Ísland |
Mælieining |
Hundraðshlutar (%) |
Skilgreiningar |
Lágtekjumörk í hverju landi eru skilgreind af Evrópusambandinu sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu í landinu. Þannig eru þeir einstaklingar undir lágtekjumörkum sem hafa lægri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu á Íslandi. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu (e. equivalised disposable income) eru skilgreindar sem ráðstöfunartekjur eftir að tillit hefur verið tekið til heimilisstærðar og þeirrar hagkvæmni í rekstri heimilisins sem fæst við það að fleiri en einn búa undir sama þaki. Einnig er gert ráð fyrir því að útgjöld vegna barna séu lægri en útgjöld vegna fullorðinna. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu eru reiknaðar í þremur skrefum. Fyrst eru allar tekjur heimilisins teknar saman. Til tekna teljast meðal annars atvinnutekjur, tekjur af fjárfestingum og félagslegum bótum, auk allra annarra heimilistekna eftir skatta og greiðslur til félagslegra kerfa. Miðað er við heildartekjur á 12 mánaða tímabili. Næst er tekið tillit til rekstrarhagkvæmni heimilisins. Til að taka mið af þessu er notaður hinn svokallaði Breytti OECD kvarði (Modified OECD equivalence scale) þar sem öllum einstaklingum er gefin tiltekin vog. Fyrsti einstaklingur á heimilinu fær vogina 1,0. Aðrir einstaklingar 14 ára og eldri fá vogina 0,5 Einstaklingar yngri en 14 ára fá vogina 0,3. Að lokum er ráðstöfunartekjum heimilisins deilt með neyslueiningum heimilisins. Þannig má segja að hjón með tvö börn yngri en 14 ára, sem hafa 500 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur alls á mánuði, hafi (500 / (1 + 0,5 + 0,3 + 0,3)) = 500 / 2,1 = 238 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á neyslueiningu. Lágtekjuhlutfall á við þá sem hafa lágar tekjur í samanburði við aðra íbúa í landinu, þ.e. eru með lægri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en 60% af miðgildi. Lágtekjuhlutfall er því ekki bein mæling á auðæfum né fátækt. |
Útreikningar |
Engir útreiknigar voru framkvæmdir þar sem gögn lágu þegar fyrir. |
Athugasemdir og takmarkanir |
Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Grunneining rannsóknarinnar er heimili fremur en einstaklingar. Úrtak rannsóknarinnar er fengið á þann hátt að einstaklingar eru valdir með slembni úr þjóðskrá og þar með heimilið sem þeir tilheyra. Sá einstaklingur sem er valinn í úrtakið kallast valinn svarandi og veitir hann allar upplýsingar um aðstæður heimilis, sínar eigin og allra annarra heimilismeðlima. Hér er greiningin miðuð við einstaklinga, og gert er ráð fyrir því að aðstæður heimilisins eigi við um alla einstaklinga á heimilinu. Þessi mælikvarði er notaður sem nálgun á heimsmarkmiðamælikvarða Sameinuðu Þjóðanna. Þar sem því má við komast er unnið að því að finna eða þróa íslensk gögn til að uppfylla forskrift Sameinuðu Þjóðanna. Þessi mælikvarði var fundinn í samstarfi við sérfræðinga á þessu sviði. |